Innlent

Segir rökstuðning ráðherra vera ósannfærandi

Rökstuðningur ráðherra vegna skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara er ósannfærandi að mati Sigurðar Línda, lagaprófessors. Hann segir nauðsynlegt að taka reglur um skipan dómara til endurskoðunar.

Árni Matthiesen kynnti í gær rökstuðning sinn fyrir skipan Þorsteins Davíðssonar í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Eins og fram hefur komið gekk Árni gegn umsögnum nefndar sem fjallaði um hæfi umsækjenda þegar hannn skipaði Þorstein í embættið. Í rökstuðningi ráðherra kemur fram að fjölbreytt reynsla og þekking Þorsteins hafi skipt miklu ekki síst störf hans sem aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra.

Sigurður Líndal, lagaprófessors, segist ekki geta tekið undir rökstuðning ráðherrans og segir hann vera ósannfærandi.

Þó ráðherra sé ekki bundinn samkvæmt lögum til að fara eftir umsögnum nefndar um hæfi umsækjenda telur Sigurður eðlilegra að ráðherra taki meiri tilllit þeirra enda sé það í samræmi við anda laganna.

Þá segir Sigurður óheppilegt að miklar deilur ríki um skipan dómara og það veiki tiltrú almennings á réttarkerfinu. Telur hann nauðsynlegt að reglur um skipan dómara verði endurskoðaðar.

Undir þessa skoðun tekur Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sem segir nauðsynlegt að taka skipunarvald frá ráðherra og færa það til Alþingis. Vill hann með því reyna að skapa frið um skipan dómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×