Fótbolti

Kjartan Henry til Sandefjord

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason er genginn í raðir norska 1. deildarliðsins Sandefjord, en hann hefur verið á mála hjá skoska liðinu Glasgow Celtic undanfarin ár. Hann skrifaði undir þriggja ára samning í dag.

Kjartan var mjög ánægður með niðurstöðuna þegar Vísir náði tali af honum í dag, en hann er búinn að vera lengi að leita sér að nýju félagi.

"Ég kom bara hingað á þriðjudaginn og leist strax mjög vel á þetta. Þetta er bara tíu ára gamall klúbbur en hér var verið að byggja nýjan 10,000 manna völl í fyrra og menn ætla sér beint upp í úrvalsdeildina," sagði Kjartan, sem reiknar með að gegna stóru hlutverki hjá liðinu.

"Ég neitaði þremur tilboðum frá Celtic um að halda áfram en sá ekki fram á að fá tækifæri til að spila þar. Hérna ætlast menn til mikils af mér og finnst mikið til þess koma að ég hafi verið hjá Celtic. Þeir voru farnir að tala um samning við mig strax eftir tvær æfingar og ég fæ meira að segja að spila í treyju númer tíu. Svo er þetta ekki nema klukkutíma frá Osló þannig að það er stutt að skjótast og heimsækja besta vin minn Theodór Elmar," sagði Kjartan og á þar við fyrrum félaga sinn hjá Celtic, sem nú leikur með Lyn í Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×