Fótbolti

Gylfi samdi við Brann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Einarsson í búningi Brann í dag.
Gylfi Einarsson í búningi Brann í dag. Mynd/Heimasíða Brann

Gylfi Einarsson samdi í dag við norska úrvalsdeildarliðið Brann til næstu þriggja ára. Hann hefur varið án félags síðan í lok ágúst á síðasta ári.

Gylfi skrifaði undir þriggja ára samning við Brann en hann þekkir vel til í Noregi. Áður en hann hélt til Leeds árið 2005 lék hann í fjögur ár með Lilleström við góðan orðstír.

Hann hefur æft með Brann undanfarna daga og var þjálfari félagsins, Mons Ivar Mjelde, afar ánægður með Gylfa.

„Gylfi hefur leikið í hæsta gæðaflokki áður og það er undir okkur komið að koma honum aftur á þann stall. Hann býr yfir hæfileikum sem henta miðjuspilinu okkar vel. Þar að auki er hann góður sóknarmaður og sterkur skallamaður," sagði Mjelde.

Gylfi verður því fjórði íslenski leikmaðurinn sem er á mála hjá Brann. Fyrir hjá félaginu eru þeir Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason og Ármann Smári Björnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×