Fótbolti

Forseti Lyon vill halda Benzema til 2045

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu í gær.
Karim Benzema fagnar marki sínu í gær. Nordic Photos / AFP

Jean-Michel Aulas, forseti Lyon, vill gjarnan að ungstirnið Karim Benzema ljúki ferli sínum hjá Lyon en hann er tvítugur að aldri.

Benzema skoraði glæsilegt mark fyrir Lyon gegn Manchester United í gær en það dugði þó ekki til sigurs þar sem leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.

Það var 26. mark hans á tímabilinu í öllum keppnum en United mun vera eitt þeirra liða sem hefur mikinn áhuga á að klófesta hann. Aulas er þó ekki á þeim buxunum að selja hann.

„Karim var ákveðinn í leiknum og er það mér mikið ánægjuefni að fylgjast með honum og hvernig hann bætir sig í hverjum leik. Ef hann gæti skrifað undir samning sem gilti til 2045 væri það frábært," sagði hann.

Real Madrid og AC Milan eru einnig orðuð við hann en enskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að United væri að undirbúa 40 milljóna punda tilboð í hann og Hatem Ben Arfa, liðsfélaga hans.

Núverandi samningur Benzema rennur út árið 2012 og Aulas segist nú vera að undirbúa nýjan samning sem á að gilda ári lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×