Fótbolti

Eiður: Allir vilja sanna sig fyrir nýjum þjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir í viðtali við New York Times í dag að það sé mikill þrýstingur sem fylgir því að spila með Barcelona.

New York Times er stærsta dagblað af sinni tegund í Bandaríkjunum og segir greinarhöfundur að Eiður Smári sé greinilega trúr og góður hermaður í fylkingu Börsunga. Smelltu hér til að lesa viðtalið í heild sinni.

„Þegar nýr knattspyrnustjóri kemur til félagsins eru allir leikmenn með lítið spurningamerki yfir hausnum sínum," sagði Eiður Smári. „Allir vilja sína sitt besta og sanna sig."

Barcelona er nú á keppnisferðalagi í Bandaríkjunum og vann 5-2 sigur á Chivas í vikunni þar sem Eiður spilaði sem sóknartengiliður.

„Þar sem ég hef lengst af verið sóknarmaður sýnir það að ég vil gera mitt til að hjálpa liðinu með því að spila á miðjunni. Nú er það mitt hlutverk að byggja upp sóknir en ekki spila sem sóknarmaður."

Hann segir að það fylgi því mikið álag að spila með Barcelona sem hefur ekki unnið titil síðan Eiður Smári kom til félagsins fyrir tveimur árum.

„Þetta er félag fólksins og stuðningsmennirnir eru mjög ástríðufullir. FC Barcelona slær í takt við borgina. Þegar liðið vinnur getur maður gengið um með bros á vör. En það er erfitt að tapa. Allir vilja að liðið sé í allra fremstu röð."

Greinarhöfundur ræddi einnig við Eið Smára um landsleikinn í apríl árið 1996 er hann kom inn á sem varamaður fyrir Arnór, föður sinn. Þeir náðu þó ekki að spila saman í landsleik þar sem Eiður meiddist stuttu síðar.

Sveinn Aron, elsti sonur Eiðs Smára, er nú tíu ára gamall og á Eiður Smári ekki von á því að þeir muni spila saman í landsliðinu.

„Ef hann kemst í landsliðið þegar hann verður sautján ára, eins og ég gerði á sínum tíma, verður það þó ekki fyrr en eftir sjö ár. Ég á því ekki von á því að það gerist eins og málin líta nú út."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×