Erlent

Auðvelt að týnast í Brussel segir lögreglustjóri

Guðjón Helgason skrifar

Sómalska baráttukonan og ofurfyrirstæan Waris Dirie baðst í gærkvöldi afsökunar á að hafa valdið uppnámi með hvarfi sínu. Hún var týnd í Brussel í Belgíu í 3 daga.

Dirie kom til Brussel á tvær ráðstefnur þar sem hún ætlaði að ræða baráttu sína gegn umskurði kvenna. Hún kom ekki enda spurðist ekkert til hennar eftir skemmtistaðaferð aðfaranótt miðvikudags. Víðtæk leit hófst. Óttast var um líf Dirie vegna baráttumála hennar.

Í gærkvöldi bar lögreglumaður kennsl á Dirie á gangi með manni á Grand Place torgi í Brussel. Dirie vildi aðeins segja að hún hefði villst og ekki fundið hótelið sitt aftur.

Jean Marc Meilleur, talsmaður saksóknara í Brussel, sagði á blaðamannafundi að Dirie hefði ekki verið fórnarlamb glæps og því væri málinu lokið af hálfu saksóknara. Að öðru leyti vildi Meilleur ekki tjá sig um málið.

Dirie baðst afsökunar á að hafa valdið uppnámi með hvarfi sínu. Hún sagðist viss um að fólk væri glatt að sjá hana aftur líkt og hún væri glöð að sjá þá sem á blaðamannafundi hennar voru. Hún sagði málið allt misskilning.

Roland Van Reusel, lögreglustjórinn í Brussel, var afar skilningsríkur en hann sat á blaðamannafundinum með Dirie. Van Reusel sagði þessa fallegu konu hafa týnst í Brussel. Hann hefði sjálfur lent í því sama enda Brussel stór borg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×