Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra þakkaði öllum viðbragðsaðilum sem komu að aðgerðinni er sneri að ísbirninum í dag og í gær. Hún sagði enn fremur að aðstæður hefðu verið tvísýnar og mjög óvenjulegt að ísbirnir kæmu með svo stuttu millibili á land.
Þórunn sagði að nú yrði að fara gaumgæfilega yfir stöðuna og jafnvel kæmi það til greina að smíðað yrði búr sem yrði til taks hér á landi. Þessi orð féllu á blaðamannafundi á Skaga rétt í þessu og það var Guðný Jóhannesdóttir, ritstjóri Feykis, sem kom þeim áleiðis til Vísis.
Stefán Vagn Stefánsson yfirlögregluþjónn sagði að ekki hefði verið hægt að læra mikið af aðstæðunum um daginn, aðstæður nú hefðu verið gjörólíkar og miklu betri. Allt hefði verið reynt til að komast bestu leið út úr þeirri stöðu sem nú var uppi en þau málalok sem urðu hafi verið einu tæku viðbrögðin.