Menning

Leikið til góðs

Við æfingar Martin Berkofsky og Einar Jóhannesson tóku á því í Salnum á miðvikudag.Fréttablaðið/valli
Við æfingar Martin Berkofsky og Einar Jóhannesson tóku á því í Salnum á miðvikudag.Fréttablaðið/valli

Píanóleikarinn Martin Berkofsky og klarínettuleikarinn Einar Jóhannesson koma fram á tónleikum í Salnum í Kópavogi kl. 17 á sunnudag.

Einar Jóhannesson þarf vart að kynna fyrir lesendum en hann er einn af fremstu hljóðfæraleikurum þjóðarinnar. Martin Berkofsky er þrautreyndur bandarískur píanóleikari. Hann bjó hér á landi á árum áður og það var einmitt hér sem hann varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að lenda í mótórhjólaslysi. Berkofsky meiddist talsvert, en lét það þó ekki aftra sér frá því að koma fram á tónleikum aðeins fáeinum vikum eftir slysið.

Árið 2000 greindist Berkofsky svo með krabbamein, en hafði blessunarlega betur í baráttu sinni við það. Eftir þá reynslu ákvað hann að helga líf sitt góðgerðarstarfsemi og hefur síðan þá ekki þegið greiðslu fyrir að koma fram á tónleikum, heldur lætur hann laun sín ávallt renna til góðgerðarmála.

Berkofsky stundar að auki maraþon­hlaup af miklum móð og hleypur reglulega til góðs. Þannig hljóp hann til að mynda frá Tulsa til Oklahoma til þess að safna fé til kaupa á krabbameinsleitartæki fyrir sjúkrahúsið í Tulsa, en þar gekkst hann sjálfur einmitt undir krabbameinsmeðferð.

Á efnisskrá þeirra Einars og Martins á sunnudag eru verk eftir tónskáld á borð við Schumann, Brahms og Þorkel Sigurbjörnsson. Miðasala fer fram í Salnum og er miðaverð 3.900 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×