Fótbolti

Fyrsti sigur Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho var ánægður með sína menn í gær.
Jose Mourinho var ánægður með sína menn í gær. Nordic Photos / AFP

Inter vann í gær sinn fyrsta sigur á tímabilinu í ítölsku úrvalsdeildinni með 2-1 sigri á Catania í umdeildum leik.

Meistararnir, undir stjórn Jose Mourinho, tókst að innbyrða sigur þó svo að hafa leikið manni færri allan seinni hálfleikinn.

Gianvito Plasmati kom gestunum yfir á 42. mínútu en Ricardo Quaresma jafnaði metin aðeins mínútu síðar.

Sulley Muntari, fyrrum leikmaður Portsmouth, fékk svo að líta rauða spjaldið á lokamínútu fyrri hálfleiksins. Hann fékk rautt fyrir að slá handleggnum í andlit Giacomo Tedesco.

Sigurmarkið kom svo snemma í síðari hálfleik og var afar umdeilt. Inter fékk hornspyrnu og Cristian Terlizzi, leikmaður Catania, skallaði boltann í átt að eigin marki. Boltinn hafnaði í innanverðri stönginni áður en Albano Bizzarri, markvörður Catania, klófesti boltann.

Dómarinn og aðstoðarmaður hans voru hins vegar báðir handvissir um að boltinn hafi farið inn fyrir línuna og höfðu mótmæli gestanna ekkert að segja.

AS Roma tapaði hins vegar nokkuð óvænt fyrir Palermo í gær, 3-1, en bæði Inter og Roma gerðu jafntefli í fyrstu umferð deildarinnar fyrir tveimur vikum.

Julio Baptista kom Roma yfir á áttundu mínútu en Fabrizio Miccoli skoraði tvívegis og Edinson Cavani einu sinni fyrir Palermo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×