Enski boltinn

Man Utd og Tottenham sættast á 25 milljónir fyrir Berbatov

Manchester United og Tottenham eru við það að ná samkomulagi um kaupverð á sóknarmanninum búlgarska Dimitar Berbatov.

Enskir miðlar greina frá því í dag að kaupverðið verði 25 milljónir punda.

Tottenham vildi upphaflega fá 32 milljónir fyrir leikmanninn en United var þá aðeins reiðubúið að greiða 20.

Liðsmyndin af United fyrir tímabilið 2008/2009 verður tekin á föstudag og er gert ráð fyrir að Berbatov verði þá orðinn leikmaður United. Búist er við honum á Carrington æfingasvæðinu í dag eða á morgun til þess að undirgangast læknisskoðun.

Gangi kaupin eftir lýkur 18 mánaða eltingarleik United við Berbatov en Tottenham hefur ítrekað hafnað tilboðum í leikmanninn.

Þeir hafi hins vegar sætt sig við að Berbatov verði að fara eftir að hafa orðið vitni af lélegum frammistöðum hans í æfingaleikjum að undanförnu.

Meðal annars í leik á móti Roma sem Tottenham vann 5-1. Berbatov var þá skipt út af í hálfleik eftir að hafa leikið 45 mínútur með hangandi haus.

25 milljónirnar sem Tottenham fá fyrir Berbatov verða strax notaðar í að finna eftirmann hans.

Rússarnir Andrei Arshavin og Roman Pavluchenko eru líklegir kandídatar. Sá fyrrnefndi hefur hótað að fara í verkfall hjá Zenít Pétursborg fái hann ekki að fara en sá síðarnefndi hentar einkar vel sem fremsti maður í 4-5-1 leikkerfi sem Juande Ramos beitir að öllum líkindum í vetur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×