Innlent

Össur býður Kristni í Samfylkinguna

MYND/AP

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra býður Kristni H. Gunnarssyni, þingflokksformanni Frjálslynda flokksins, að ganga í Samfylkinguna vegna þeirra deilna sem nú eru innan Frjálslynda flokksins.

Fram kom á Vísi í dag að Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, vildi ekki að Kristinn gegndi áfram starfi þingflokksformanns vegna þess hvernig hann hefði farið fram í störfum sínum. Sagðist Jón hafa viðrað þá skoðun við Guðjón Arnar Kristjánsson, formann flokksins.

Össur ritar um þessar deilur á heimasíðu sína á Eyjunni og segir Kristin hafa unnið sér það til óhelgis að vera andsnúinn öfgakenndri stefnu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í innflytjendamálum. Vísar Össur þar til deilna Kristins og Magnúsar um komu palenstínskra flóttamanna til Akraness. ,,Í því máli sýndi Sleggjan siðferðisþrek, sem ber að virða. Hann heldur því enda fram að sín stefna sé í fullu samræmi við stefnu Frjálslynda flokksins, sem Kristinn telur ekki ala á útlendingaandúð. Um það mætti raunar setja á aðrar tölur síðar," segir Össsur.

Þá segir iðnaðarráðherra að Kristinn hafi einnig unnið sér það til óhelgis að að hafa stutt Guðjón Arnar Kristjánsson sem Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður, Jón Magnússon og Sigurjón Þórðarson grafi nú undan. ,,Þetta er í senn atlaga að Guðjóni Arnari, og tilraun til að gera Frjálslynda flokkinn að einsmálsflokki þar sem andóf gegn innflytjendum verður sett á oddinn að norskri fyrirmynd," segir Össur enn fremur.

,,Langbesti leikur Kristins H. Gunnarssonar í þessari stöðu er að skera á festar, og sækja um inngöngu í þingflokk Samfylkingarinnar. Hann á ekki að láta öfgamennina í Frjálslynda flokknum niðurlægja sig með því að hrekjast úr embætti þingflokksformanns. Kristinn er ekkert annað en jafnaðarmaður, með svipaða slagsíðu og sumir landsbyggðarþingmenn okkar, að ógleymdum byggðaráðherranum. Ég býð hann að minnsta kosti velkominn fyrir mína parta," segir Össur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×