Íslenski boltinn

Fylkir og ÍA gerðu jafntefli

Elvar Geir Magnússon skrifar

Einum leik er lokið í Landsbankadeild karla. Fylkir og ÍA gerðu jafntefli 2-2 í botnbaráttuslag. Fylkismenn jöfnuðu undir lok leiksins.

Ingimundur Níels Óskarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Fylki. Hann fékk góða sendingu frá Halldóri Hilmissyni á hægri kantinum, lék á Guðjón Heiðar Sveinsson og skaut á markið en Trausti Sigurbjörnsson varði vel, Ingimundur náði frákastinu og skoraði.

Undir lok fyrri hálfleiksins jafnaði ÍA í 1-1. Stefán Þór Þórðarson negldi boltanum upp í þaknetið eftir að varnarmönnum Fylkis hafði mistekist að hreinsa boltann í burtu.

Snemma í seinni hálfleik komust Skagamenn yfir. Björn Bergmann Sigurðarson skoraði með skalla eftir sendingu Jóns Vilhelms Ákasonar. Markvörðurinn Fjalar Þorgeirsson átti sök að máli þar sem hann fór í glórulaust úthlaup og Björn Bergmann skallaði í autt markið.

Þegar 20 mínútur voru til leiksloka fékk Fylkir víti. Trausti í marki ÍA braut á Hauki Inga Guðnasyni. Valur Fannar Gíslason tók vítið en Trausti varði vítið örugglega. Á 86. mínútu náði Fylkir að jafna. Valur Fannar Gíslason fékk sendingu á fjærstöng og skallaði boltann í netið.

ÍA er enn í næstneðsta sæti með 8 stig en Fylkir er sæti ofar með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×