Menning

Bók um inúíta og jarðhlýnun

Ragnar Axelsson hefur lent í ýmsum ævintýrum í ferðalögum sínum með inúítum eins og sjá má í væntanlegri ljósmyndabók hans.
Ragnar Axelsson hefur lent í ýmsum ævintýrum í ferðalögum sínum með inúítum eins og sjá má í væntanlegri ljósmyndabók hans.

Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, RAX, heldur til Alaska og Síberíu á næstunni til að mynda fyrir væntanlega bók sína. Fjallar hún um áhrif hlýnunar jarðar á lifnaðarhætti inúíta og gengur undir vinnuheitinu Last Days of the Arctic, eða Síðustu dagar norðurheimskautsins.

Textahöfundur bókarinnar er Skotinn Mark Nuttal, prófessor í mannfræði, sem er einn helsti sérfræðingur heims í menningu og lifnaðarháttum inúíta.

„Ég hef farið ég veit ekki hvað margar ferðir og myndað með veiðimönnum. Manni verður kalt þegar maður fer að rifja þetta upp,“ segir Ragnar. „Þetta er heimur sem er að breytast mjög hratt og sumt af þessu verður ekkert gert aftur.“

Ragnar segir að hlýnun jarðar sé nokkuð sem allir verði að horfast í augu við. „Hún er veruleikinn hvort sem það er af mannavöldum eða ekki.“

Fyrr á árinu myndaði hann á Baffin-eyju í Kanada fyrir bók sína og komst þar í tæri við ísbirni. „Ísbjörninn er svolítil skræfa og hleypur yfirleitt frá þér en ef hann er svangur ræðst hann á þig,“ segir Ragnar, sem sá einnig fyrsta ísbjörninn sem steig hér á land í sumar. „Ég flaug yfir hann en var ekki sá sem var kærður. Ég fór svo hátt yfir hann því ég þorði ekki að styggja hann. Svo fór einhver daginn eftir og fór þá rétt yfir hausinn á honum og þá varð allt vitlaust,“ segir ljósmyndarinn knái og hlær.

Bók Ragnars, sem verður tilbúin næsta vor, er unnin af nýrri bókaútgáfu Kristjáns B. Jónassonar og Snæbjarnar Arngrímssonar, Crymogea ehf. Er hún framleidd með alþjóðlega útgáfu í huga og standa nú yfir viðræður við erlend forlög um að gefa hana út víða um heim.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×