Fótbolti

Norrköping enn án sigurs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður Norrköping.
Garðar Gunnlaugsson, leikmaður Norrköping. Mynd/Sænska knattspyrnusambandið
Fjórir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld en Íslendingaliðið Norrköping er enn án sigurs eftir tíu umferðir.

Norrköping tapaði í kvöld fyrir AIK á heimavelli. Hvorki Garðar Gunnlaugsson né Gunnar Þór Gunnarsson voru í leikmannahópi Norrköping sem er í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.

Annað Íslendingalið, GIF Sundsvall, er einnig í fallsæti og aðeins einu stigi meira en Norrköping. Sundsvall tapaði Gefle á útivelli í kvöld, 2-0.

Sverrir Garðarsson og Hannes Sigurðsson voru í byrjunarliði Sundsvall og Ari Freyr Skúlason kom inn á sem varamaður á 67. mínútu.

Þá gerðu Malmö og GAIS 1-1 jafntefli. Eyjólfur Héðinsson kom inn á sem varamaður á 74. mínútu en Jóhann Birnir Guðmundsson sat allan tímann á bekknum. GAIS er í tíunda sæti deildarinnar með tólf stig.

Að síðustu vann Halmstad 3-2 sigur á Ljungskile.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×