Enski boltinn

Ronaldo: Ég verð áfram hjá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo verður áfram í herbúðum United.
Cristiano Ronaldo verður áfram í herbúðum United. Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo hefur staðfest að hann verði áfram í herbúðum Manchester United í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar.

Þetta hefur portúgalska dagblaðið Publico eftir honum en Ronaldo hefur ítrekað verið orðaður við Real Madrid eftir að hann lýsti yfir áhuga sínum að fara til Madrídar.

„Sir Alex Ferguson heyrði mín rök og ég heyrði hans. Og í sannleika sagt var besta lausnin fyrir báða aðila sú að ég verði áfram hjá United.“

„Ég get því staðfest að ég mun spila með Manchester United á næsta keppnistímabili.“

Ferguson sagði í gær að máli Ronaldo væri lokið og að hann myndi ekki fara frá félaginu.

Ronaldo vildi undirstrika að hann væri sáttur við að vera áfram.

„Áður en orðrómar fara af stað þess efnis að ég sé að spila gegn mínum vilja vil ég taka það skýrt fram að sá sem heldur því fram er að ljúga. Ég mun leggja hjarta mitt og sál í Manchester-liðið. Ég mun berjast stoltur fyrir hönd liðsins eins og ég hef alltaf gert.“

Hann sagði einnig að hann bæri sína sök á því að samskipti Manchester United og Real Madrid eru ekki góð.

„Ég bar ábyrgð á öllum þessum deilum. Það var ég sem sagði að ég vildi fara til Real Madrid og það varð til þess að samband þessara tveggja félaga varð slæmt, þó það hafi ekki verið ætlun mín.“

Hann útilokaði þó ekki að ganga til liðs við Real Madrid síðar á ferlinum.

„Ég vissi að Real Madrid hafði mikinn áhuga á að fá mig og að þeir gerðu United mjög ríflegt tilboð. Ég vildi um stundarsakir að United myndi taka því. Ef ég myndi halda öðru fram væri ég að blekkja aðra jafnt sem eigin samvisku.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×