Fótbolti

Færeyingar stórhuga gegn Man City

Bekkurinn verður væntanlega þétt setinn á Tórsvelli á morgun
Bekkurinn verður væntanlega þétt setinn á Tórsvelli á morgun NordcPhotos/GettyImages

Stjórnarformaður knattspyrnufélagsins EB/Streymur í Færeyjum segist ekki eiga von á að hans menn verði kjöldregnir á fimmtudaginn þegar þeir mæta enska úrvalsdeildarliðinu Manchester City í Þórshöfn.

Leikurinn er liður í Evrópukeppni félagsliða og þetta verður fyrsti leikur Mark Hughes sem stjóri City. Flestir reikna með einvígi Davíðs og Golíats, en þeir færeysku eru hvergi smeykir við enska stórliðið.

"Ég á ekki von á bursti. Ég á von á frekar jöfnum leik, en hver veit nema við sjáum eitthvað óvænt," sagði Rólant Hojsted, stjórnarformaður EB/Streymur.

Liðið er í toppsæti færeysku Formúludeildarinnar eftir 15 umferðir en hefur raunar tapað tveimur síðustu leikjum sínum í deildinni.

Færeyingarnir hafa nokkrar áhyggjur af meiðslum í sínum röðum, en á meðal þeirra sem ekki geta tekið þátt í þessum sögulega leik lögreglumaðurinn og landsliðsmaðurinn Mikkjal Thomassen. Allir leikmenn EB/Streymur eru áhugamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×