Enski boltinn

Ramos vill enn halda Berbatov

Talið er að Berbatov gæti farið frá Tottenham líkt og félagi hans Robbie Keane
Talið er að Berbatov gæti farið frá Tottenham líkt og félagi hans Robbie Keane NordcPhotos/GettyImages

Enn er ekki orðið ljóst hvort búlgarski framherjinn Dimitar Berbatov muni spila með liði Tottenham þegar enska úrvalsdeildin hefst um helgina.

Berbatov hefur verið orðaður við Manchester United í fjölmiðlum á Englandi undanfarna daga, en Juande Ramos, stjóri Tottenham, er ekki á því að missa annan framherjann á skömmum tíma í burtu frá félaginu.

"Það eru enn tveir dagar í fyrsta leik og mikið getur gerst á þeim tíma. Ég mun stilla upp í lið mitt eftir síðustu æfingu og þá sjáum við hvernig staðan verður. Berbatov er leikmaður Tottenham. Hann er frábær leikmaður og það væri gott fyrir hann að vera hér áfram," sagði Ramos og benti á að fjölmiðlafárið hefði engin áhrif á leikmanninn.

"Berbatov hefur æft af krafti og er sannur atvinnumaður, en umboðsmaður hans sér um vangavelturnar í blöðunum," sagði Ramos.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×