Samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er raunhæfasti kosturinn í borgarstjórnar Reykjavíkur, að mati Magnúsar Stefánssonar þingmanns Framsóknarflokksins. Magnús gerir nýjustu hræringar í borgarstjórn að umfjöllunarefni í nýjum pistli á heimasíðu sinni. Hann segir einungis tímaspursmál hafi verið hvenær núverandi meirihlutasamstarf myndi springa.
,,Það er því enn á ný þannig að Framsókn er kölluð til verka þegar á reynir, þetta er örugglega ekki í síðasta skiptið sem það gerist," segir Magnús.
Magnús segir Óskar Bergsson, borgarfulltrúa flokksins, og samstarfsfólk hans standa frammi fyrir ögrandi og mikilvægu verkefni á næstu tveimur árum. ,,Það er klárt mál að kratar og kommar munu gera allt til þess að skíta Óskar út, í því hafa kratar og þó sérstaklega kommar verið sérfræðingar alla tíð. Við Framsóknarmenn höfum mjög oft þurft að sitja undir slíku og eflaust verður svo nú. Slíkt sýnir fyrst og fremst innræti og pólitískt eðli þeirra."
Pistil Magnúsar Stefánssonar er hægt að lesa hér.