Fótbolti

Manchester United í úrslit

Hinn magnaði Paul Scholes fagnar marki sínu með Rio Ferdinand félaga sínum
Hinn magnaði Paul Scholes fagnar marki sínu með Rio Ferdinand félaga sínum AFP

Það er ljóst að það verða tvö ensk lið sem leika til úrslita í Meistaradeild Evrópu. Manchester United tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleiknum með 1-0 sigri á Barcelona í fjörugum leik á Old Trafford.

Fyrri leik liðanna á Spáni lauk með markalausum jafntefli en það tók gamla refinn Paul Scholes ekki nema rúmar þrettán mínútur að skora í leiknum í kvöld.

Þrumufleygur hans efst í markhornið reyndist nóg til að tryggja enska liðinu sigur og verðskuldaðan farseðil í úrslitaleikinn í Moskvu. Þetta var fyrsta mark Scholes fyrir United í átta mánuði og það hefði ekki geta komið á betri tíma.

Barcelona byrjaði leikinn með miklum látum og var með undirtökin þar til Scholes skoraði markið glæsilega.

Bæði lið fengu aragrúa færa í leiknum, en tókst ekki að nýta þau. Þar af sóttu Börsungar eðlilega án afláts síðustu tíu mínútur leiksins, en gríðarleg pressa þeirra nægði ekki til að koma boltanum í netið.

Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekknum hjá Barcelona og fékk að koma inn á 88. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×