Innlent

Segir Kompás hafa valdið sér ómældum fjárhagslegum skaða

Björgvin Þór Þorsteinsson, sem var umfjöllunarefni Kompás í gærkvöldi, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þáttarins. Þar segir hann meðal annars að umsjónarmenn þáttarins hafi reynt að gera lítið úr og rýra trúverðugleika sinn. Björgvin segist ætla að leita til lögmanns með tilliti til þess hvort rétt sé að höfða mál á hendur ritstjóra og ábyrgðarmanni Kompáss fyrir tilraun til mannorðsmorðs og að hafa valdið sér ómældum fjárhagslegum skaða.

Yfirlýsingu Björgvins má sjá hér að neðan:

„Í sjónvarpsþættinum Kompási í gærkvöldi, 15. desember, var fjallað um ferli gjaldþrota einstaklinga og það lögformlega ferli sem á sér stað þegar einstaklingar lenda í greiðsluerfiðleikum. Á meðal efnis í þættinum var leynileg upptaka þáttarins af samskiptum undirritaðs við leikara á vegum Kompáss, sem léku hlutverk pars í greiðsluerfiðleikum.

Einkasamtal undirritaðs við leikarana var til þess gert að varpa skugga á fullkomlega lögleg viðskipti. Þau viðskipti snúast ekki um að koma fólki í greiðsluerfiðleika, heldur eru þau hugsuð sem möguleg leið út úr greiðsluerfiðleikum. Með því að ganga til liðs við undirritaðan eiga einstaklingar í greiðsluerfiðleikum möguleika á því að vinna til baka tapaða fjármuni með því að taka þátt í áhættufjárfestingum.

Í umfjöllun Kompáss var ýmislegt gert til þess að varpa rýrð á orðspor undirritaðs. Þáttargerðarmenn kusu að birta texta með samtali mínu við leikara þáttarins, þar sem farin var sú leið að hafa textann skrifaðan eftir orðanna hljóðan í stað þess að birta rétt stafsett orð. Með þessu móti hafa þáttargerðarmennirnir vafalaust viljað gera lítið úr mér sem einstaklingi og styrkja frekar eigin framsetningu.

Eins var sérstaklega tekið fram að stafsetningarvillur í ákveðnum tölvupósti, sem þáttargerðarmennirnir höfðu undir höndum, væru ekki umsjónarmanna þáttarins heldur undirritaðs. Sjálfsagt vilja forsvarsmenn Kompáss skrifa þetta á nákvæm vinnubrögð en auðvelt er að færa rök fyrir því að fyrirætlan þeirra sé heldur að gera lítið úr og rýra trúverðugleika þess sem um er fjallað.

Rétt er að taka fram að viðskiptavinum undirritaðs er gert fyllilega ljóst að áhættufjárfestingar séu í eðli sínu vandasamar. Rétt eins og þær geta reynst vera mjög ábatasamar geta þær líka falið í sér að peningar tapist. Aðferðir undirritaðs fela í sér að einstaklingar, sem eru í greiðsluerfiðleikum, geti varist með ýmsu móti harkalegum innheimtuaðferðum kröfuhafa gegn einstaklingum en leitun er að ómanneskjulegri gjaldþrotalöggjöf en hér á landi.

Því er alfarið hafnað að undirritaður hafi brotið nokkur lög með þjónustu sinni. Jafnframt hefur undirritaður óskað eftir því að lögmaður hans kanni réttarstöðu hans með tilliti til þess hvort rétt sé að höfða mál á hendur ritstjóra og ábyrgðarmanni Kompáss fyrir tilraun til mannorðsmorðs og að valda undirrituðum ómældum fjárhagslegum skaða."










Tengdar fréttir

Kompás í kvöld: Lögmaður hótar lögsókn

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, hefur sent fréttaskýringaþættinum Kompási bréf fyrir hönd umbjóðanda síns Björgvins Þorsteinssonar. Í bréfinu segir, að verði auglýstur Kompásþáttur sem er á dagskrá í kvöld sýndur með óbreyttu sniði, sé Björgvini nauðugur einn sá kostur að höfða skaðabótamál á hendur 365 hf.

Kompás í kvöld: Almannahagsmunir í húfi

Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Kompáss, segir að málið sem tekið sé fyrir í Kompás í kvöld varði almannahagsmuni. Í þættinum er sýnt frá því þegar útsendarar Kompáss hitta Björgvin Þorsteinsson sem auglýst hafði eftir því að komast í samband við fólk sem væri illa statt fjárhagslega en þó ekki gjaldþrota. Fólkið átti að fá greitt fyrir að taka á sig skuldir óskyldra aðila þar sem það væri hvort sem er á leið í gjaldþrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×