Viðskipti innlent

Skemmtilegir markaðir á Indlandi og í Kína, segir Jón Ásgeir

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs.

Ólíklegt er að ríkissaksóknari gefi út ákærur á hendur Baugi Group á ný. Þetta sagði Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs, fyrir um stundarfjórðungi í viðtali í sjónvarpsþættinum Squawk Box sem sýndur er á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNBC. Þá sagðist hann einnig telja að ákærurnar væru lagðar fram á pólitískum forsendum.

Í kynningu þáttastjórnenda kom fram að Jón Ásgeir færi fyrir Baugi Group, sem væri að undirbúa mikið kaupæði.

Jón Ásgeir sagði að þrátt fyrir samdrátt í smásölu og þrengingar á fjármálamörkuðum þá væru áhugavert að horfa til góðra fyrirtækja. „Við fjárfestum ekki til árs í senn, heldur horfum til lengri tíma. Núna gætu því verið áhugaverðir tímar," segir hann og kveður Baug horfa til sterkra vörumerkja á alþjóðamarkaði þegar kemur að fjárfestingum.

Rætt var um kaupskaparþingið í Barcelona, sem fram fór í síðustu viku en Jón Ásgeir var þar einn af ræðumönnum, vöxt í netverslun og vöxt Baugs almennt.

„Við sjáum skemmtilega markaði opnast svo sem á Indlandi og í Kína, en þar er vöxtur svo hraður að maður er að tapa markaðshlutdeild, ef ársvöxtur fyrirtækisins er innan við 30 prósent," sagði hann.

Jón vakti athygli á því að breska verslanakeðjan Karen Millen verði stærri í Rússlandi á næsta ári en í Bretlandi. Karen Millen hefur aukið hratt við sig í bresku herrafataversluninni Moss Bros upp á síðkastið. Þar er Baugur fyrir í hluthafahópnum með 29 prósent og hefur flaggað óbindandi yfirtökutilboði í verslunina upp á 40 milljónir punda.

Hægt er að horfa á viðtalið hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×