Erlent

Mál blaðakonunnar Saberi tekið fyrir

Blaðamaðurinn Roxana Saberi.
Blaðamaðurinn Roxana Saberi.
Íranskur dómstóll tekur á morgun fyrir áfrýjun á dómi yfir írönsku-bandarísku blaðakonunni Roxana Saberi. Hún var í síðasta mánuði dæmd í átta ára fangelsi fyrir njósnir. Saberi hafði þá um nokkurt skeið starfað í Íran sem fréttaritari fyrir vestræna fjölmiðla.

Ekki er talið að niðurstaða fáist á morgun og gætu liðið nokkrar vikur áður en hún liggi fyrir. Saberi fór í mótmælasvelti skömmu eftir að dómurinn var kveðinn upp um miðjan apríl en fór aftur að matast á mánudaginn síðastliðinn. Þá mun hún hafa verið töluvert máttfarin.

Bandarísk stjórnvöld segja málið gegn Saberi allt tilhæfulaust og krefjast þess að hún verði þegar látin laus. Málið hefur gert Baracks Obama Bandaríkjaforseta erfitt fyrir að friðmælast við Írana.


Tengdar fréttir

Blaðakona og fegurðardrottning dæmd fyrir njósnir

Íransk-bandaríska fréttakonan Roxana Saberi hefur verið dæmd í átta ára fangelsi í Íran. Roxana hefur verið búsett í Íran í sex ár og starfaði meðal annars sem blaðakona fyrir BBC, Fox News og fleiri fréttastöðvar. Hún var upprunalega handtekinn í janúar á þessu ári en réttarhöldin yfir henni hafa verið lokuð.

Blaðakona í mótmælasvelti

Íransk-bandaríska blaðakonan Roxana Saberi er í mótmælasvelti. Saberi var fyrr í mánuðinum dæmd í átta ára fangelsi í Íran fyrir njósnir fyrir Bandaríkin. Hún er fædd og uppalin í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×