Suður-Kóreumaðurinn Y.E. Yang vann glæsilegan sigur í PGA-meistaramótinu í Bandaríkjunum í kvöld og varð þar með fyrsti Asíubúinn til að vinna stórmót í golfi.
Þetta er einnig í fyrsta sinn sem að Tiger Woods vinnur ekki stórmót eftir að hann var með forystuna þegar keppni á lokadeginum hófst. Hann hefur alls unnið fjórtán risamót.
Sigur Yang var sérlega glæsilegur. Hann lék vel í allan dag og tók fram úr Tiger á fjórtándu holu þegar hann fékk örn og komst á átta högg undir par. Tiger var þá á sjö höggum undir pari.
Báðir fengu þeir skolla á sautjándu en á þeirri átjándu fékk Yang fugl eftir glæsilegt högg inn á flöt. Tiger hitti hins vegar ekki flötina og þurfti svo að tvípútta. Hann lauk því keppni á fimm undir pari en Yang á átta undir pari.
Tiger var aldrei líkur sjálfum sér í dag og átti sérstaklega erfitt með púttin. Hann lék á alls 75 höggum í dag en Yang lék á 70 höggum.
Yang vann Tiger á síðasta risamóti ársins
