Innlent

Leikskólastjórar múlbundnir af borginni

Leikskólar Reykjavíkurborgar eru 79 talsins, auk 19 einkarekinna leikskóla. Alls eru um 8.200 reykvísk börn á leikskóla.Fréttablaðið/pjetur
Leikskólar Reykjavíkurborgar eru 79 talsins, auk 19 einkarekinna leikskóla. Alls eru um 8.200 reykvísk börn á leikskóla.Fréttablaðið/pjetur

Leikskólakennurum í Reykjavík hefur verið meinað að áframsenda á stjórnir foreldrafélaga fundarboð frá hagsmunasamtökum foreldra leikskólabarna. Þeir mega heldur ekki hengja upp veggspjöld frá samtökunum þar sem slíkir fundir eru auglýstir, né tala á neikvæðum nótum um fyrirhugaðan niðurskurð hjá leikskólum borgarinnar.

Sviðsstjóri leikskólasviðs borgarinnar hefur í tvígang síðustu daga sent leikskólastjórum í borginni tölvupóst með fyrirmælum um þetta. Í þeim er talað um að hvers kyns áróður sé bannaður í leikskólum. Neikvæð umræða um niðurskurðinn falli undir þá skilgreiningu.

Heimildir Fréttablaðsins herma að töluverðrar óánægju gæti meðal leikskólastjóra vegna þessara fyrirmæla.

Hagsmunasamtökin Börnin okkar, samtök foreldrafélaga leikskóla hafa einkum haft uppi varnaðarorð vegna niðurskurðaráforma á leikskólasviði, líkt og sérstakur starfshópur sem myndaður hefur verið um að andmæla hugmyndunum.

Fundurinn sem ekki mátti auglýsa fór fram í Miðbæjarskólanum í gærkvöldi. Þar upplýstu fulltrúar leikskólasviðs og leikskólaráðs borgarinnar foreldra um niðurskurðaráformin og gerðu þeim grein fyrir hvernig til stæði að ná fram þeim 400 milljóna sparnaði sem stefnt er að.

Auglýsinga- og umræðubannið var einnig tekið til umræðu á fundinum. Fundurinn var ekki yfirstaðinn þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi og því náðist hvorki tal af fulltrúum hagsmunasamtakanna, né sviðsstjóra leikskólasviðs eða formanni leikskólaráðs vegna málsins.

Hagsmunasamtök foreldra hafa ítrekað lýst yfir óánægju með að skera skuli niður um 5,57 prósent á leikskólasviði á næsta ári. Hafa þeir krafist þess að sviðinu verði hlíft við hagræðingu því börnin eigi að vera fremst í forgangsröð borgarinnar.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×