Brasilíumaðurinn Ronaldinho er hamingjusamur þessa dagana. Hann er farinn að spila eins og maður á nýjan leik og AC Milan er fyrir vikið komið á siglingu.
Hann segir að boltinn sem Milan spili þessa dagana sé eins og boltinn sem Barcelona spilar.
„Það er ekkert lið á Ítalíu að spila eins og við, með þrjá menn í sókninni. Þessi stíll gerir okkur að liði eins og Barcelona," sagði Brasilíumaðurinn sem átti flottan leik í 2-1 sigri á Lazio í gær.
„Þetta Milan-lið getur bara orðið betra og við ætlum okkur langt. Önnur lið mega fara að passa sig á okkur. Ég er mjög hamingjusamur, er að spila vel rétt eins og liðið."