Viðskipti innlent

Eimskip tapaði 96 milljörðum á síðasta ári

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips

Eimskip tapaði rúmum 96 milljörðum á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu félagsins sem birt var í dag. Munar þar mestu um tap á fjórða ársfjórðungi sem var 72 milljarðar.

Helsta ástæða þessa mikla taps er sú staðreynd að félagið færði kæligeymslustarfsemi sína í Norður-Ameríku, sem er í söluferli, undir aflagða starfsemi. Auk þess yfirtók Eimskið ábyrgð á XL Leisure Group þegar það fór í þrot og þurfti að afskrifa tæpa tíu milljarða vegna Innovate í Bretlandi.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir í tilkynningu frá félaginu að afkoma ársins hafi verið verulega slæm og sé fyrst og fremst skýrð með miklum gjaldfærslum og háum fjármagnsgjöldum.

"Helstu gjaldfærslur félagsins á árinu má rekja til gjaldfærslu vegna ábyrgða tengdum flugrekstri, afskriftum óarðbærra fjárfestinga í Bretlandi og Hollandi, niðurfærslu viðskiptavildar og annarra eigna, háum fjármagnskostnaði vegna mikillar skuldsetningar og óhagstæðra lánakjara. Sé litið á rekstrarafkomu flutningastarfseminnar þá dregst hún saman milli ára. Skiptir þar mestu máli samdráttur í flutningum til Íslands á seinni hluta ársins. Á undanförnum mánuðum hefur félagið markvisst unnið að því að hagræða í rekstri til að mæta samdrætti og sú hagræðing mun skila sér að fullu á árinu 2009. Fjárhagsleg staða félagsins er óviðunandi en unnið er að sölu eigna í Norður Ameríku sem lækka mun skuldasetningu félagsins. Samhliða er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu með lánveitendum félagsins. Markmið miða að því að endurskipulagningu verði lokið fyrir sumarið og að traustari stoðum verði skotið undir Hf.Eimskipafélag Íslands svo það megi verða áfram mikilvægur hlekkur i atvinnulífi landsins," segir Gylfi ennfremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×