Innlent

Laugavegi lokað í góðu veðri

Gunnar segist ekki frábitinn því að Laugavegi sé lokað á góðviðrisdögum, en undrast lítið samráð við kaupmenn.fréttablaðið/vilhelm
Gunnar segist ekki frábitinn því að Laugavegi sé lokað á góðviðrisdögum, en undrast lítið samráð við kaupmenn.fréttablaðið/vilhelm

Til íhugunar er að loka hluta Laugavegs fyrir bílaumferð á góðviðrisdögum í sumar. Dofri Hermannsson, fulltrúi Samfylkingar í umhverfis- og samgönguráði, lagði fram tillögu þess efnis á fundi ráðsins á þriðjudag.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður ráðsins, segir málið í skoðun á milli funda. Rætt hafi verið við kaupmenn við götuna og þeir séu jákvæðir. Öll útfærsla sé þó eftir, hvar verði lokað og hvenær, og það þurfi að útfæra með kaupmönnum.

Dofri vísar til reynslunnar af Pósthússtræti, en því hefur verið lokað á góðviðrisdögum. Dofri leggur jafnframt til að komið sé upp „góðviðrisstrætó“ sem gangi eftir Hverfisgötu. Þannig væri komið til móts við þá sem eru gangandi. Gunnar Guðjónsson, eigandi Gleraugnamiðstöðvarinnar við Laugaveg, undrast að ekki hafi verið haft meira samráð við kaupmenn áður en tillagan var lögð fram í ráðinu.

„Við erum ekki endilega á móti þessu, en það er fáránlegt að leggja þetta fram án þess að ræða við hagsmunaaðila í götunni.“

Gunnar segir það geta verið vandkvæðum bundið að vita ekki hvenær götunni verði lokað. Hann minnir á að kaupmenn hafi lokað götunni í tengslum við langa laugardaga og jafnvel boðið upp á skemmtiatriði.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×