Sport

Lewis tekinn inn í frægðarhöll hnefaleikamanna

Ómar Þorgeirsson skrifar
Lennox Lewis.
Lennox Lewis. Nordic photos/Getty images

Tilkynnt hefur verið að breski fyrrum þungavigtarmeistarinn Lennox Lewis verði brátt tekinn inn í frægðarhöll hnefaleikamanna en hinn 43 ára gamli Lewis lagði hanskana á hilluna árið 2003.

Lewis ákvað að hætta eftir sigur gegn Vitali Klitschko en stoppa þurfti bardagann vegna þess að Úrkaínumaðurinn, sem er núverandi meistari í þungavigt, var svo illa skorinn í andlitinu. Klitschko vildi mæta Lewis aftur í hringnum en Bretinn hefur fram til þessa ekki tekið í mál að koma aftur í hringinn og ólíklegt að hann snúi aftur úr þessu.

Þegar Lewis hætti var hann með 41 sigur, 2 töp og 1 jafntefli á ferilskrá sinni sem atvinnumaður í hnefaleikum. Oliver McCall og Hasim Rahman voru þeir sem unnu Lewis en Lewis og Holyfield skildu jafnir í umdeildum bardaga árið 1999 í Madison Square Garden í New York þar sem Lewis átti að flestra mati skilið að vinna.

Lewis hefur síðar getið sér gott orð í sjónvarpi en hann tók meðal annars þátt í Celebrity Apprentice raunveruleikaþættinum á NBC sjónvarpsstöðinni þar sem hann lenti í fjórða sæti af fjórtán keppendum.







Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×