Viðskipti erlent

Glitnir í Noregi fjármagnaði kaup á hlutum í klámfyrirtæki

Glitnir Securities, verðbréfamiðlun Glitnis í Noregi, fjármagnaði kaup viðskiptavina sinna á hlutabréfum í klámfyrirtækinu Private Media House. Mikið tap er af þessum kaupum og situr verðbréfamiðlunin RS Platou Markets uppi með það tap en Platou festi kaup á Glitnir Securities eftir bankahrunið í fyrra.

Í frétt um málið á vefsíðu Dagens Næringsliv segir að um umfangsmiklar fjárfestingar hafi verið að ræða í klámfyrirtækinu hjá viðskiptavinum Glitnis Securities. Nýlega neyddist Platou að gera veðkall hjá stórum hópi viðskiptavinanna upp á 25 milljónir norskra kr. eða um 550 milljónir kr.

Í heildina er tap Platou á hlutabréfunum í klámfyrirtækinu um 110 milljónir norskra kr. eða um 2,4 milljarðar kr.

Fram kemur að þegar Platou keypti Glitnir Securities í fyrrahaust hafi fyrrgreindur viðskiptahópur fylgt með í kaupunum enda var fjármögnun hlutafjárkaupanna á hendi Glitnis. Var því um talsverðar skuldbindingar að ræða sem Platou tók að sér. Platou starfar hinsvegar aðallega á sviði skipasölu og olíuvinnslu en ekki í klámbransanum.

„Þetta er óheppilegt en við höfum gert það sem við gátum til að koma okkur út úr þessari stöðu," segir Henrik A. Christensen forstjóri RS Platou Markets. „Við höfum tapað töluverðum upphæðum á að fjármagna þessi hlutabréfakaup og erum að koma okkur úr þeirri stöðu. Þetta voru hlutabréf sem Glitnir fjármagnaði og síðan voru samningarnir um þau endurnýjaðir."

Christensen segir ennfremur að verðmæti hlutabréfanna í Private Media House hafi verið orðið lítið undir lokin enda hefur fyrirtækið farið illa út úr kreppunni eins og svo mörg önnur en Private Media House er staðsett í Bandaríkjunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×