Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lauk þriðja hring sínum á Opna austurríska mótinu í morgun og spilaði á einu höggi yfir pari vallarins.
Birgir Leifur var ekki mjög stöðugur í spilamennsku sinni á hringnum því hann fékk fjóra skolla og fjóra fugla á fyrstu tólf holunum en svo fékk hann einn skolla til viðbótar á sex síðustu holunum.
Birgir Leifur er samtals á tveimur höggum undir pari og er í 55. sæti en Benn Barham er sem stendur efstur í mótinu á þrettán höggum undir pari.