Viðskipti innlent

Iceland Food græðir vel í kreppunni

Gulleggið Iceland Food heldur áfram að græða á tá og fingri. Félagið sérhæfir sig í sölu á frostnum matvælum. Iceland Food var í eigu Baugs en skilanefndir Landsbankans og Glitnis fara nú með stóran hluta í félaginu eftir að Baugur varð gjalþrota. Malcolm Walker, forstjóri félagsins, á auk þess hlut í félaginu.

Velta Iceland Food hefur aukist um 16 prósent á þessu ári borið saman við síðasta ár. Félagið seldi vörur fyrir 2,1 milljarð punda samanborið við 1,8 milljarða punda veltu á síðasta ári. Ársuppgjör Iceland Food inniheldur tímabilið mars 2008 og fram til mars 2009, ólíkt flestum félögum þar sem ársuppgjörið miðast við áramót.

Þetta er fjórða árið í röð sem að vöxtur tekna Iceland Food á milli ára er yfir 10 prósentum.

EBITDA hagnaður félagsins jókst um 36 prósent milli ára og nam 163 milljónum punda. Hagnaður félagsins nam tæpum 114 milljónum punda og jókst hann um 84 prósent milli ára.

Eins og Vísir hefur áður greint frá, munu sjötíu nýjar Iceland Food verslanir opna á þessu ári. Hátt í 700 verslanir Iceland Food eru á Bretlandi.

„Þessi metafkoma undirstrikar þann mikla viðsnúning sem átt hefur sér stað síðan ég og mínir yfirstjórnendur komu aftur til félagsins í febrúar 2005," segir Malcolm Walker, forstjóri félagsins, í viðtali við fis.com.

„Lykillinn að árangrinum hefur verið einfalt rekstrarskipulag en félag okkar er færasta fyrirtæki Bretlands á sínu sviði," segir forstjórinn ennfremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×