Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á gulli heldur áfram að hækka

Heimsmarkaðsverð á gulli heldur áfram að hækka og slær nýtt verðmet nær daglega þessa stundina. Í morgun var verðið komið í tæpa 1.130 dollara á únsuna og hefur aldrei verið hærra í sögunni.

„Fjárfestar finna skjól í gullinu og ég tel að það muni hækka í 1.300 dollara á únsuna," segir Wallace Ng aðalmiðlari hjá Fortis Bank í samtali við Bloomberg. „Þegar maður sér þróunina í dollaranum er þetta sanngjarnt mat."

Fjárfestar telja að dollarinn muni halda áfram að lækka og því sækja þeir í gull samhliða öðrum hrávörum. Olía til afhendingar í desember hækkaði um 1,4% í New York og stendur í 77,4 dollurum en Brent olían hækkar um 1,2% og stendur í 77,2 dollurum.

Á London Metal Exchange eru allar tölur í grænu fyrir utan ál sem fellur um rúma 10 dollara frá því á föstudag og er í 1.936 dollurum á tonnið m.v. þriggja mánaða framvirka saminga. Miklar sveiflur hafa verið á álverðinu undanfarnar vikur en það fór yfir 2.000 dollara á tonnið fyrir tíu dögum síðan.

Af öðrum málmum má nefna að kopar hefur hækkað um 2,6% í morgun og nikkel um 3,7%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×