Innlent

,,Veljum íslenskt" ekki alltaf íslenskt

Sala á ákveðnum íslenskum vörum hefur tekið kipp eftir að Samtök iðnaðarins hófu herferð sína Veljum íslenskt eftir bankahrunið. Fyrirtæki munu í fullum rétti að selja erlenda framleiðslu með íslenskum fánaborðum og þekktum Íslendingum og gera það sum purkunarlaust, án þess að víkja einu orði að erlendum uppruna vörunnar.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst er búið að prenta hátt á aðra milljón miða eftir bankahrunið með slagorðum til þjóðarinnar um að kaupa íslenskt. Þjóðin virðist hafa hlýtt kallinu. Framleiðendur sem fréttastofa hefur rætt við segja að íslenskar vörur þeirra hafi tekið sölukipp eftir bankahrunið, allt frá nokkrum prósentum og upp í 50%.

En það er ekki allt íslenskt þótt svo virðist á yfirborðinu. Minna mál frá Myllunni sem skartar mynd af líkamsræktarfrömuðinum Ágústu Johnson er þýsk framleiðsla. Fryst grænmeti frá Íslensku meðlæti er selt með fánalitunum en hvergi kemur fram að grænmetið er flutt inn, en pakkað hér.

Marteinn Magnússon, markaðsstjóri Íslenskt meðlæti, telur að nafn fyrirtækisins sé lýsandi fyrir það sem það standi fyrir.

Ekki voru þó allir í búðinni á því að nafnið væri lýsandi.

,,við erum ekki að blekkja neinn," segir Marteinn.

En fyrirtæki eru líklega í fullum rétti að þegja yfir uppruna vöru. Í lögum segir aðeins að ekki megi blekkja kaupendur um uppruna vöru. Grænmetisbændur hafa auðkennt íslenskt grænmeti með samræmdri fánarönd og formaður þeirra er ekki sáttur við núverandi löggjöf.

Löggjöfin dugar ekki og er handónýt, að mati Þórhalls Bjarnason formanns Sambands garðyrkjubænda.

Við fjöllum ítarlega um málið í Íslandi í dag að loknum fréttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×