Kvennalið Hamars úr Hveragerði vann Val í kvöld 72-63 en þetta var fyrsti leikur liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í körfubolta.
Liðið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslit.
Hamar hafði fimm stiga forskot í hálfleik í Hveragerði í kvöld og lét forystuna ekki af hendi í seinni hálfleik. Julia Demirer skoraði 23 stig fyrir liðið í leiknum í kvöld.
Hjá Val var Melissa Mitidiero stigahæst með 22 stig en liðin mætast í öðrum leik sínum í Vodafone-höllinni á miðvikudag. Ef Hamri tekst að landa sigri þar kemst liðið í undanúrslitin en Valsstúlkur geta tryggt sér oddaleik í Hveragerði með sigri.