Handbolti

Varnarleikurinn ekki til staðar

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram, á leiknum í kvöld.
Einar Jónsson, þjálfari Fram, á leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
Einar Jónsson þjálfari Fram var að vonum ósáttur við leik síns liðs eftir, 38-31, ósigurinn gegn Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í úrslitum úrslitakeppni N1 deildarinnar.

„Fyrri hálfleikur var alveg arfaslakur. Varnarlega vorum við ekki með. Það getur vel verið að það hafi komið losarabragur á leik okkar þar sem ég róteraði mikið í fyrri hálfleik en maður þarf að skoða þetta og fara yfir þetta."

„Við skorum 31 mark sem er í góðu lagi en að fá á sig 38 mörk er allt of mikið og maður vinnur ekki leiki þar sem það gerist."

Einar gaf ekki mikið fyrir þær pælingar að Fram hafi misst af gullnu tækifæri til að landa sigri í Mýrinni þar sem Florentina Stanciu markvörður Stjörnunnar tók út leikbann.

„Mér fannst það ekki skipta máli. Sólveig stóð sig vel í markinu og varði nokkur dauðafæri. Ég spái ekkert í því hver sé í markinu hjá þeim. Það hefði engu skipt þó Florentina hefði verið í markinu í kvöld, við hefðum samt fengið 38 mörk á okkur. Það er það sem við þurfum fyrst og fremst að laga."

Stjarnan náði góðri forystu strax í upphafi leiks og Fram þurfti því að elta allan leikinn og hafði ekki erindi sem erfiði.

„Við förum með dýrmæt færi á upphafsmínútunum. Bæði lið fengu upplögð færi snemma leiks og við nýttum okkar illa á meðan þær nýttu flestar sínar sóknir í hálfleiknum. Vörn og markvarsla var ekki til staðar hérna í dag hjá okkur," sagði Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×