Handbolti

Nýjar ásakanir bornar á Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Uwe Schwenker er borinn þungum sökum í Spiegel.
Uwe Schwenker er borinn þungum sökum í Spiegel. Nordic Photos / Bongarts
Kiel á að hafa borgað pólsku dómurunum í úrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 2007 samtals 96 þúsund evrur og alls mútað dómurum í tíu mismunandi tilfellum.

Þetta staðhæfir þýska vikublaðið Der Spiegel á netútgáfu sinni. Á morgun kemur út næsta tölublað með ítarlegri umfjöllun um málið.

Blaðið heldur því fram að Uwe Schwenker, framkvæmdarstjóri Kiel, hafi viðurkennt að hann hafi stundað mútustarfssemi fyrir hönd Kiel á fundi með einum forráðamanna Rhein-Neckar Löwen.

Á enn öðrum fundi mun Noka Serdarusic, fyrrum þjálfari Kiel, hafa skýrt frá vitneskju sem hann hafði um hinar ýmsu mútur. Enn fremur mun hann hafa sjálfur tekið þátt í slíkri starfssemi með því að benda á aðila sem gætu nálgast viðkomandi dómara með tilboð um mútur.

Serdarusic mun einnig hafa greint frá því að pólska dómaraparið sem dæmdi úrslitaleik Kiel og Flensburg í Meistaradeild Evrópu árið 2007 alls 96 þúsund evrur.

Blaðið nefnir ekki hvaðan heimildir sínar koma en þó mun einn forráðamanna Rhein-Neckar Löwen, Dieter Matheis, hafa staðfest að frétt Spiegel væri rétt í yfirlýsingu sem hann sendi blaðinu.

Málið hófst á því á sínum tíma að Matheis sendi Schwenker bréf um þessar ásakanir sem svo rötuðu í þýska fjölmiðla.

Schwenker hefur síðan þetta kom fram enn og aftur harðneitað því að Kiel hafi stundað nokkurs konar mútustarfssemi. Hann sagði þetta ekkert nema orðróm og sögusagnir. Enn fremur að Kiel ætlaði að leita réttar síns í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×