Handbolti

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar komnir í undanúrslit

Kristján Andrésson, þjálfari Guif.
Kristján Andrésson, þjálfari Guif. Mynd/Heimasíða Guif

Sænska liðið Guif tryggði sér um helgina sæti í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta þegar liðið vann þrettán marka sigur á Lugi, 35-22, á útivelli í fjórða leik liðanna. Guif vann einvígið 3-1.

Kristján Andrésson þjálfar Guif og hefur byggt upp nýtt og skemmtilegt lið síðustu tvö tímabil. Úrslitakeppnin byrjaði þó ekki vel því Luigi vann fyrsta leikinn í einvíginu. Guif svaraði því með því að vinna þrjá leiki í röð.

Þetta er besti árangur Guif-liðsins undir stjórn Kristjáns en í fyrra fór liðið alla leið í oddaleik á móti verðandi Svíþjóðarmeisturum Hammarby í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Guif-liðið náði 3. sæti í deildarkeppninni í ár og hækkaði sig um fimm sæti frá tímabilinu á undan þegar liðið endaði í áttunda sæti.

Auk Guif eru lið Sävehof og Hammarby einnig komin áfram í undanúrslit en staðan er 2-2 í einvígi LIF Lindesberg og Alingsås HK.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×