Innlent

Brasilískur dómsmálaráðherra vill til Íslands út af glæpamanni

Valur Grettisson skrifar
Hosmany Ramos.
Hosmany Ramos.

Brasilíski dómsmálaráðherrann, Romeu Tuma Junior sagði í þarlendum fjölmiðlum að hann væri tilbúinn til þess að koma til Íslands ef það liðkaði fyrir framsali lýtalæknisins Hosmany Ramos sem var handtekinn á Leifsstöð fyrir um viku síðan.

Hosmany kom til Íslands á vegabréfi bróður síns en yfirvöld áttuðu sig á blekkingunni. Í kjölfarið var Hosmany dæmdur í fimmtán daga fangelsi hér á landi og dvelur í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg.

Hosmany var dæmdur árið 1981 í Braslilíu fyrir stórfelld fíkniefnasmygl á milli Brasilíu og Bandaríkjanna. Þá var hann einnig dæmdur fyrir að myrða flugmann. Hosmany er lýtalæknir að mennt og einhver frægast fangi Brasilíu. Hann var í slagtogi við fótboltagoðsögnina Péle og fleiri fyrirmenni í Brasilíu á níunda áratugnum.

Hann flúði Brasilíu í upphafi þessa árs en hann hefur skrifað bækur um vondan aðbúnað í brasilískum fangelsum. Hann segist óttast um líf sitt í Brasilíu sökum gagnrýni sinnar á fangelsismálin þar í landi.

Romeu Tuma segir í brasilískum fjölmiðlum að hann hafi óskað eftir framsali Hosmany á miðvikudaginn síðasta. Enginn framsalssamningur er á milli Ísland og Brasilíu.

Romeu útilokar því ekki að skipta á íslenskum föngum, sem eru að minnsta kosti þrír, fyrir Hosmany. Brasilísk yfirvöld gerðu síðast slíkan samning við yfirvöld í Mónakó. Þá var bankamaðurinn Salvatore Cacciola framseldur til Brasilíu.

Utanríkisráðuneytið á enn eftir að taka ákvörðun um framhald málsins. Hugsanlegt er að Hosmany verði vísað úr landi til Noregs þaðan sem hann kom til Íslands en hann var á leiðinni til Kanda þegar hann var handsamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×