Handbolti

Konan myndi segja að ég væri svartsýnn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorra gengur illa að fá sig góðan af þrálátum hnémeiðslum.
Snorra gengur illa að fá sig góðan af þrálátum hnémeiðslum. Mynd/Pjetur

„Ég var að vonast til þess að vera orðinn verkjalaus en ég er það því miður ekki. Reyndar er verkurinn kominn á annan stað en ég er að vonast til þess að þetta sé ekkert alvarlegt," sagði Snorri Steinn Guðjónsson, leikmaður GOG í Danmörku.

Snorri Steinn fór ekki með félögum sínum til Kiel þar sem þeir mæta þýsku meisturunum í Meistaradeildinni í kvöld. Snorri Steinn hefur síðustu mánuði farið í tvær hnéaðgerðir og batinn ekki verið eins góður og menn höfðu vonast til.

„Þessi meiðsl lagast vonandi með tímanum en það þarf að minnka álagið og sýna þolinmæði. Þess vegna er ég til að mynda ekki að spila í Kiel. Ég get ekki æft af fullum krafti og kannski spilaði inn í að það var mikið álag eftir að ég kom til baka. Tveir til þrír leikir í viku og svo æfingar ofan í það. Ég spilaði líka fyrsta leikinn eftir aðeins tvær æfingar sem var kannski ekki sérstaklega gáfulegt eftir á að hyggja," sagði Snorri Steinn sem kann ekki vel við það hlutverk að vera utan vallar.

„Ég hef nánast ekki misst af neinum leikjum síðustu ár og ég kann því betur að spila en sitja upp í stúku. Þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið, ég verð að viðurkenna það. Þetta er ný staða en hún venst ákaflega illa," sagði Snorri Steinn.

Meiðsli Snorra hafa verið mynduð og ekkert alvarlegt komið í ljós. Læknar vonast til að hann komist í lag með réttu álagi sem þýðir að Snorri þarf að fara hægt í sakirnar.

„Ég nenni satt að segja ekki að fara í fleiri aðgerðir. Þetta er ágætt í bili. Ef svo illa færi að ég þyrfti að fara í aðgerð yrði það samt ekki fyrr en næsta sumar," sagði Snorri Steinn en er hann óttasleginn um að þessi meiðsli eigi eftir að plaga hann lengi?

„Ég vil ekki meina að ég sé svartsýnn en konan mín myndi líklega segja að ég væri það. Auðvitað er maður samt aðeins smeykur þegar tvær aðgerðir eru að baki, ég á að vera verkjalaus en er það samt ekki. Maður hefur það alltaf á bak við eyrað að kannski sé ekki allt í lagi," sagði Snorri Steinn sem leyfir sér að brosa og gantast þrátt fyrir erfiða stöðu.

„Ég held að ég þurfi bara að komast í smá fótbolta með landsliðinu. Þá hlýtur þetta að lagast. Ég vona því að Gummi velji mig í næsta hóp," sagði Snorri léttur.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×