Handbolti

HM-samantekt: Grimm örlög Norðmanna og Þjóðverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Norðmenn voru heldur niðurlútir í leikslok.
Norðmenn voru heldur niðurlútir í leikslok. Nordic Photos / AFP
Handbolti getur verið ótrúleg íþrótt. Noregur var hársbreidd frá sæti í undanúrslitunum en spilar þess í stað um níunda sætið við Slóvakíu. Ótrúlegri lokaumferð milliriðlakeppninnar á HM í handbolta í Króatíu er lokið.

Evrópumeistarar Dana unnu fyrr í dag sigur á heimsmeisturum Þjóðverja, 27-25, og tryggðu sér þar með efsta sæti riðilsins. Þýskaland var þar með enn með fimm stig, rétt eins og Serbía.

Noregur og Pólland voru bæði með fjögur stig fyrir leik liðanna í kvöld. Staðan var 30-30 þegar fimmtán sekúndur voru til leiksloka og Norðmenn með boltann í sókn. Þeir fórnuðu markverðinum fyrir sjöunda manninn sem missti boltann ótrúlega klaufalega frá sér og Pólverjar tryggðu sér sigur með því að skora í autt markið frá eigin vallarhelmingi.

Pólverjar fóru þar með í sex stig en skildu Norðmenn eftir í fjórum stigum og í fimmta sæti riðilsins. Hefði þessum leik lyktað með jafntefli hefðu fjögur lið verið jöfn með fimm stig og Þýskaland staðið best þeirra með besta markahlutfallið og þar með farið í undanúrslit.

Hreint ótrúleg atburðarás en niðurstaðan er afar sætur sigur Pólverja sem fögnuðu gríðarlega í leikslok.

Niðurstaðan í hinum milliriðlinum var löngu orðin ljós. Frakkar og Króatar voru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en þessi lið mættust í kvöld þar sem lykilmenn í báðum liðum voru hvíldir. Króatía vann leikinn, 22-19, og mæta því Pólverjum í undanúrslitunum.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Frakkland og Danmörk. Margir veðja á að það verði einmitt Frakkland og Króatía sem mætast í úrslitunum.

Vísir tekur hér saman úrslit dagsins á HM í handbolta í Króatíu og skoðar framhaldið á mótinu.

Milliriðill 1:

Úrslit:

Ungverjaland - Suður-Kórea 28-27

Slóvakía - Svíþjóð 26-27

Frakkland - Króatía 19-22

Lokastaðan:

Króatía 10 stig (+19 í markatölu)

Frakkland 8 (+27)

Ungverjaland 5 (-8)

Svíþjóð 4 (-5)

Slóvakía 3 (-13)

Suður-Kórea 0 (-20)

Frétt: Ungverjar spila um fimmta sætið

Sem fyrr segir voru úrslit í þessum riðli löngu ráðin. Leikur Frakka og Króata var þýðingarlaus en Ungverjar fögnuðu mjög eftir að þeir lögðu Suður-Kórea naumlega og tryggðu sér þar með réttinn að spila um fimmta sætið á mótinu.

Svíar spila um sjöunda sætið og hefðu sjálfsagt viljað fara lengra á þessu móti. Slóvakía spilar um níunda sætið og Suður-Kórea um það ellefta.

En ljóst er að Frakkar og Króatar eru í algjörum sérflokki á þessu móti miðað við gang liðanna hingað til. Þótt erfitt sé að fullyrða um nokkuð slíkt er ljóst að það er langlíklegast að þessi tvö lið munu aftur mætast á mótinu og þá í úrslitaleiknum.

Milliriðill 2:

Úrslit:

Makedónía - Serbía 28-32

Þýskaland - Danmörk 25-27

Pólland - Noregur 31-30

Lokastaðan:

Danmörk 8 stig (+11 í markatölu)

Pólland 6 (+9)

Þýskaland 5 (+14)

Serbía 5 (-8)

Noregur 4 (-3)

Makedónía 2 (-23)

Frétt: Danir í undanúrslit

Frétt: Þjóðverjar eiga enn möguleika

Frétt: Hrikalegt klúður Norðmanna - Pólverjar í undanúrslit

Á meðan að Frakkar og Króatar höfðu það náðugt í dag og gátu leyft sér að hvíla sína sterkustu menn voru Danir og Pólverjar að berjast með kjafti og klóm fyrir sæti sínu í undanúrslitunum. Það gæti vegið þungt en leikmenn fá nú þrjá daga til að hvíla sig fyrir næstu leiki sem verða á föstudaginn.

Heimsmeistararnir munu ekki verja titil sinn á mótinu og mæta Ungverjum í leik um fimmta sætið á fimmtudaginn. Serbar geta vel við unað en örlög Norðmanna eru afar grimm. Það verður ekki annað sagt.

Makedónía sló út Ísland í undankeppni mótsins og gerðu vel með því að komast í milliriðlakeppnina. Þeir spila um ellefta sætið á mótinu sem er fínn árangur fyrir þá.

Undanúrslit:

Undanúrslitin fara fram á föstudaginn.

16.30: Danmörk - Frakkland

19.30: Króatía - Pólland

Leikir um 5.-12. sætið:

Liðin sem ekki komust úr milliriðlunum tveimur í undanúrslitin keppa á fimmtudaginn um sæti á mótinu. Liðin sem urðu í þriðja sæti í sínum riðli keppa um fimmta sætið og svo framvegis:

Leikirnir:

11. sætið: Suður-Kórea - Makedónía (11.30)

9. sætið: Slóvakía - Noregur (19.15)

7. sætið: Svíþjóð - Serbía (16.30)

5. sætið: Ungverjaland - Þýskaland (14.00)

Forsetabikarinn:

Í dag lauk hinum svokallaða Forsetabikar þar sem þau tólf lið sem ekki komust í milliriðlakeppnina kepptu sín á milli. Í dag var svo leikið um tólf neðstu sætin á mótinu og kom það ekki á óvart að Spánverjar voru þar hlutskarpastir eftir sigur á Egyptum í leik um þrettánda sætið.

Rússar vilja sjálfsagt gleyma þessu móti sem allra fyrst. Þeir töpuðu í dag fyrir Rúmeníu í leik um fimmtánda sætið og luku því keppni í sextánda sætinu.

Úrslitin:

Ástralía - Sádí-Arabía 19-23

Kúvæt - Brasilía 24-27

Kúba - Alsír 27-34

Argentína - Túnis 23-29

Rúmenía - Rússland 42-38

Spánn - Egyptaland 28-24

24. sæti: Ástralía

23. sæti: Sádí-Arabía

22. sæti: Kúvæt

21. sæti: Brasilía

20. sæti: Kúba

19. sæti: Alsír

18. sæti: Argentína

17. sæti: Túnis

16. sæti: Rússland

15. sæti: Rúmenía

14. sæti: Egyptaland

13. sæti: Spánn






Fleiri fréttir

Sjá meira


×