Fótbolti

Henry fór upp fyrir Eusebio á markalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry skoraði sitt 6. mark fyrir Barcelona í Meistaradeildinni.
Thierry Henry skoraði sitt 6. mark fyrir Barcelona í Meistaradeildinni. Mynd/AFP

Thierry Henry skoraði sitt 48. mark í Evrópukeppni meistaraliða þegar hann tryggði Barcelona 1-1 jafntefli á móti Lyon í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á þriðjudagskvöldið. Henry skoraði markið með skalla af stuttu færi og var ekki því um dæmigert mark hjá Frakkanum að ræða.

Þessi frábæri franski framherji lék sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni með Mónakó á móti Bayer Leverkusen 1. október 1997 en hann hefur skorað þessi 48 mörk í 103 leikjum sem gera 0,46 mörk að meðaltali í leik.

Það hafa aðeins fjórir leikmenn skorað fleiri mörk en Henry, Spánverjinn Raúl (64), Hollendingurinn Ruud van Nistelrooy (60), Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko (56) og Argentínumaðurinn Alfredo di Stéfano sem átti metið í langan tíma en hann skoraði 49 mörk fyrir Real Madrid.

Henry fór upp fyrir portúgalska snillinginn Eusebio með þessu marki en Eusebio, eða Svarta perlan eins og hann var kallaður, skoraði 47 mörk fyrir Benfica á sjöunda og áttunda áratugnum. Eusebio vann Evrópukeppni Meistaraliða með Benfica 1962 en hann varð einnig í 2. sæti 1963, 1965 og 1968.

Hnery hefur skorað sex þessara marka fyrir Barcelona, þrjú þeirra skoraði hann á síðasta tímabili og markið á Stade Gerland leikvanginum í Lyon var hans þriðja í keppninni í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×