Handbolti

HM: Hrikalegt klúður Norðmanna - Pólverjar í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bartosz Jurecki er hér kominn í gegnum vörn Norðmanna.
Bartosz Jurecki er hér kominn í gegnum vörn Norðmanna. Nordic Photos / AFP

Norðmenn gáfu frá sér sæti í undanúrslitunum á HM í handbolta í Króatíu þar sem Pólverjar skoruðu gjörsamlega ótrúlegt sigurmark. Leiknum lauk með 31-30 sigri Pólverja.

Norðmenn voru í lykilstöðu þegar tvær mínútur voru eftir. Staðan 30-28, Noregi í vil og þeir í sókn. Þá misstu Norðmenn bolta og Mariusz Jurasik minnkaði muninn með marki úr hraðaupphlaupi.

Slawomir Szmal, markvörður Pólverja, varði svo frá Frank Löke í næstu sókn Norðmanna og aftur skoraði Pólland úr hraðaupphlaupi og jafnaði þar með leikinn, 30-30. Rafal Glinski var þar að verki.

Þegar fimmtán sekúndur voru eftir stilltu Norðmenn upp í sókn. Jafntefli hefði dugað hvorugu liðinu þar sem þá hefðu Þjóðverjar farið áfram. Norðmenn þurftu því að skora og settu því inn sjöunda manninn í sóknina og skildu markið eftir autt.

Það var einmitt sjöundi maðurinn í norsku sókninni sem reyndi afleita línusendingu á Frank Löke og gaf Pólverjum boltann. Artur Siodmiak skoruði í autt markið frá eigin vallarhelmingi og leiktíminn rann út. Þar með var sigurinn þeirra og sæti í undanúrslitunum.

Hreint ótrúleg atburðarrás í leiknum sem hafði verið í járnum allan tímann. Staðan í hálfleik var 14-14 en Norðmenn náðu frumkvæðinu í leiknum þegar tólf mínútur voru eftir og þeir komust í þriggja marka forystu, 24-21. Frumkvæðinu héldu þeir allt þar til á lokasekúndunum.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út hjá Pólverjum en sorg Norðmanna var mikil. Skiljanlega.

Karol Bielecki skoraði fimm mörk fyrir Pólverja en Kristian Kjelling átta fyrir Noreg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×