Frakkinn Franck Ribery hjá Bayern München hefur gefið sterklega í skyn að hann kunni að framlengja samning sinn við þýska félagið eftir allt saman en hann var sterklega orðaður við félagaskipti í sumar og mörg af stærstu félögum Evrópu á höttunum eftir honum.
Núverandi samningur Ribery er til ársins 2011 en nú virðist leikmaðurinn tilbúinn að gera nýjan samning.
„Félagið er búið að láta í ljós hvað það vill og ég hef mínar hugmyndir um hvað ég vill. Það er ótrúlegt hvað hlutirnir gerast stundum fljótt í fótbolta og það þarf í raun og veru ekki nema einn fund til þess að kippa hlutunum í lag. Ég finn fyrir miklu trausti og mikilli ást frá Bayern München og það skiptir miklu máli," sagði Ribery í samtali við þýska fjölmiðla um helgina.