Fótbolti

Eiður Smári: Þetta var erfiður leikur fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/AFP

„Þetta var erfiður leikur fyrir mig. Ég á enn eftir að venjast öllu og læra inn á samherjana, leikkerfið og völlinn sem er ekki góður," sagði Eiður Smári Guðjohnsen í viðtali við France Football eftir fyrsta leikinn sinn með AS Mónakó í gær. Mónakó vann þá 2-0 sigur á Paris-SG og spilaði Eiður fyrstu 87 mínúturnar í leiknum eða þar til að Mónakó-liðið komst í 1-0.

„Það sem skipti mestu máli er að við unnum leikinn. Ef ég er ekki góður og liðið vinnur þá hef ég ekki sérstakar áhyggjur. Ég veit samt að ég þarf að skila meiru til liðsins og ég mun vinna í því að bæta mig á næstu vikum," sagði Eiður Smári auðmjúkur eftir leik.

Guy Lacombe, þjálfari Mónakó var á sama máli. „Hann vantar ennþá að komast í takt við allt en hann er alltaf hættulegur. Það er búist við miklu af honum og hann gerir sér vel grein fyrir því sjálfur," sagði Guy Lacombe, nýi þjálfari Eiðs Smára hjá Mónakó.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×