Salah er nú kominn með 15 mörk og ellefu stoðsendingar sem þýðir að í fyrsta skipti í sögu ensku úrvalsdeildarinnar nær leikmaður þeim áfanga að fara í tveggja stafa tölu í báðum tölfræðiþáttum.
Þá er hann einnig fyrsti leikmaðurinn til að skila tveggja stafa tölum í mörkum og stoðsendingum (talið yfir allt tímabilið) fjögur tímabil í röð og í heildina er þetta sjötta tímabilið sem hann gerir það. Enginn leikmaður í sögu deildarinnar hefur leikið það eftir en Wayne Rooney náði því alls fimm sinnum.
Salah er sem sakir standa markahæstur í deildinni og ef hann endar markahæstur verður það í fjórða sinn sem hann endar sem markakóngur deildarinnar, en aðeins Thierry Henry hefur náð að vinna markatitilinn fjórum sinnum.