Fótbolti

Hansa Rostock með annað tilboð í Helga Val

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Valur í leiknum gegn Hollandi á laugardaginn.
Helgi Valur í leiknum gegn Hollandi á laugardaginn.

Hansa Rostock hefur gert sænska úrvalsdeildarfélaginu Elfsborg annað tilboð í Helga Val Daníelsson eftir að því fyrra var hafnað.

Þetta sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Helga Vals, í samtali við Vísi í dag. Hann hafði ekki heyrt hvort að þeir sænsku væru ánægðari með síðara tilboðið.

Helgi Valur hefur verið lykilmaður í liði Elfsborg síðan hann kom til félagsins í desember árið 2007. Þá hafði hann verið hjá Öster í tvö ár. Hann lék einnig með Peterbrough í ensku C-deildinni árin 2000 til 2003 en gekk þá til liðs við uppeldisfélag sitt, Fylki, þar sem hann lék til ársins 2005.

Hansa Rostock hefur undanfarin ár leikið einna helst í þýsku úrvalsdeildinni en liðið féll í fyrra og náði sér illa á strik á nýliðnu tímabili. Hafnaði liðið í þrettánda sæti í þýsku B-deildinni.

Helgi Valur á að baki ellefu landsleiki en hann var í byrjunarliðinu gegn Hollandi nú á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×