Menning

Arnar sýnir í Start Art

Eitt verka Arnars á sýningunni í Start Art.
Eitt verka Arnars á sýningunni í Start Art.

Í dag verða nýjar sýningar opnaðar í galleríinu Start Art á Laugavegi. Þar eru á ferðinni Arnar Herbertsson í Forsal, Guðrún Öyahals á Loftinu, Björk Viggósdóttir í Austursal niðri og þær Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þuríður Sigurðardóttir í Austur- og Vestursal uppi.

Mestum tíðindum sætir sýning á nýjum verkum Arnars Herbertssonar en hann hóf feril sinn á sjöunda áratugnum í skjóli SUM.

Arnar fæddist á Siglufirði árið 1933 og stundaði nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík frá 1959-1967.

Myndir Arnars hafa þróast til nokkuð sérstæðs myndheims. Í þeim er oft að finna sálrænan þankagang, þar sem myndir eru innan og utan við tíma og rúm og notkun tákna er ríkjandi. Súrrealískur myndheimur og andrúmsloft tímaleysis einkennir verk Arnars sem hefur haldið fáar einkasýningar á ferlinum en tekið þátt í þeim mun fleiri samsýningum hérlendis og erlendis. Aðalsteinn Ingólfsson skrifar inngang að sýningu Arnars og segir þar meðal annars: „Í heimi myndlistarlegrar ofgnóttar er sem betur fer enn hægt að finna verk sem eru svo sérstök - eða hreint og beint sérviskuleg - að þau koma manni fyrir sjónir eins og sendingar frá annarri plánetu. Í þeim flokki eru tvímælalaust verk Arnars Herbertssonar, sem illu heilli verður að teljast einn af huldumönnum íslenskrar nútímamyndlistar. Ekki svo að áhorfandinn velkist í vafa um meginþætti þessara verka, sjálfa tæknilegu hliðina eða grunneiningar þeirra. Hér er um að ræða nostursamlega málaðar olíumyndir á panel, þar sem myndmálið dregur dám af ýmsu því sem við könnumst við, til að mynda úr strangflatamálverki sjötta og sjöunda áratugarins og úr draumaveröld symbólista og súrrealista, kannski líka úr véltæknilegum fantasíum Eduardos Paolozzi.

Nýting Arnars á þessari arfleifð - eða efniviði - er hins vegar fordæmalaus; minnir helst á aðferðir sundurgreinandi (analýtískra) kúbista. Í verkum hans sem byggjast upp á samspili eintóna flata eru allir möguleikar uppi á borðinu og nýttir til hins ítrasta: hefðbundin árétting tvívíðra flata, umritun flatanna í þrívídd, svif þeirra um ómælisvíddir eða skipan þeirra í óhagganleg mynstur sem minna um margt á mynsturmálverk áttunda áratugarins."

pbb@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×