Sport

Skytturnar sigruðu á Gimli Cup

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skytturnar sjást hér með Gimli-bikarinn.
Skytturnar sjást hér með Gimli-bikarinn. Mynd/Haraldur Ingólfsson
Skytturnar frá Akureyri tryggðu sér sigur á þriðja krullumóti vetrarins hjá Krulludeild Skautafélags Akureyrar. Mótið heitir Gimli Cup og er þar keppt um veglegan bikar sem gefinn var af Vestur-Íslendingunum Alma og Ray Sigurdsson í Gimli í Manitóba í tilefni af opnun Skautahallarinnar árið 2000. Fyrst var keppt um bikarinn 2001 og er mótið nú því það níunda í röðinni.

Átta lið úr röðum Krulludeildar SA tóku þátt í mótinu nú og voru það Skytturnar sem stóðu uppi sem sigurvegarar, unnu sex leiki af sjö. Í öðru sæti urðu Mammútar, unnu fimm leiki, og í þriðja sæti Garpar með fjóra vinninga.

Þetta er annað mótið sem Skytturnar vinna á þessu keppnistímabili en fyrr í haust varð liðið Akureyrarmeistari í krullu. Í liðinu eru þeir Jón Hansen, Árni Ingólfsson, Sigurgeir Haraldsson, Árni Arason og Ágúst Hilmarsson.

Með sigrinum nú náðu tveir liðsmenn úr Skyttunum að vinna Gimli-bikarinn í þriðja skiptið, þeir Jón Hansen og Ágúst Hilmarsson, en auk þeirra hefur Hallgrímur Valsson einnig unnið bikarinn þrisvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×