Fótbolti

Ranieri ætlar að skora snemma á móti Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Ranieri, þjálfari ítalska liðsins Juventus.
Claudio Ranieri, þjálfari ítalska liðsins Juventus.

Claudio Ranieri, þjálfari ítalska liðsins Juventus, segir það nauðsynlegt fyrir sitt lið að skora snemma í seinni leiknum á móti Chelsea í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar ætli Juve sér áfram í átta liða úrslitin. Chelsea vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli sínum. Seinni leikurinn fer fram á morgun.

"Við þurfum að fá mark strax. Við þurfum að spila eins og við kunnum best sem er að skora mörk," sagði Ranieri. "Guus Hiddink er búinn að ná góðum úrslitum en það hlýtur að koma að því að hann tapi leik," bætti Ranieri við.

Chelsea hefur unnið fyrstu fimm leiki sína undir stjórn Hiddink en liðið hefur enn ekki unnið útileik í Meistaradeildinni, gerði jafntefli á móti Bordeaux og CFR Cluj í riðlakeppninni og tapaði síðan á móti AS Roma.

Ranieri er með sína kenningu um ensk lið. "Ensku liðin eiga oft í erfiðleikum á útivelli og þar kom okkar stuðningsmenn inn í dæmið. Okkar áhagendur geta veitt okkur hjálparhönd," sagði þessi fyrrum stjóri Chelsea.

Juventus hefur ekki gengið vel með ensk lið að undanförnu því liðið datt út fyrir Arsenal 2006 og fyrir Liverpool árið á undan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×