Sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir vann enn ein gullverðlaun Íslands á Smáþjóðaleikunum en hún setti einnig mótsmet á leikunum, í tvígang.
Í morgun synti hún á tímanum 56,53 sekúndum í 100 metra skriðsundi í undanrásum, en það er tæpri sekúndu frá Íslandsmeti hennar í greininni sem er 55,66 sekúndur.
Ragnheiður bætti svo um betur í úrslitasundinu sjálfu þegar hún synti á tímanum 55,97 sekúndur en Anna Stylianou frá Kýpur varð í öðru sæti á tímanum 56,47.
Hin unga og efnilega Ingibjörg Jónsdóttir varð í fjórða sæti eftir harða baráttu við Christine Mailliet frá Lúxemborg.